S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum.

Gott að leggja

Fjölmörg bílastæði eru við Tjarnarvelli og við Ásvallalaug.

Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Markmið

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Fróðleikur

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Ástjörn og umhverfi hennar.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

Ástjörnin á sér margar birtingarmyndir og sumar fallegri en aðrar.