Á Bleikisteinshálsi, efst á Hamranesi, er Bleikisteinn sem var markavarða jarðanna Hvaleyrar og Áss. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni.

Bleikisteinn

Hamranesið er í dag að mestu útgrafið en þar var sprengt grjót til að nota við nýjustu hafnargarðana í Hafnarfjarðarhöfn. Útjaðrarnir eru þó eftir sem mynda nesið, og sjá má mikil björg, fagurlega skreytt skófum norðan vert í hálsinum.

Landmælingastólpi.

Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“

Ofar, á Bleikisteinshálsi, er markavarða í línu að Þormóðshöfða. Þessi varða er nokkrum metrum ofan við endimörk mikils jarðrasks utan í hálsinum.