Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir hluta Setbergslands segir: „Suðaustan Kúadals er aflöng hæð frá norðaustri til suðvesturs, Þverhlíð. Á suðvesturenda Þverhlíðar er svokallað Háanef. Austur af Þverhlíð er Syðsta-Tjarnholt, öðru nafni Fremsta-Tjarnholt, en syðst á því er stór klettur með grasþúfu uppi á.
Það er Markasteinn og er á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands.
Í Markasteini átti að búa huldufólk og taldi amma mín, Sigurbjörg Jónsdóttir, sig einu sinni hafa heyrt þar strokkhljóð, þegar hún var unglingur. Suðvesturhlíð Sandahlíðar, Kúadalshæðar og Þverhlíðar heitir einu nafni Setbergshlið. Hraunið þar suðvestur af heitir Gráhelluhraun og dregur nafn af stórum kletti í hrauninu, Gráhellu, sem reyndar er alls ekki hellulaga. Undir honum eru leifar fjárhúss frá Setbergi.“
Milli hraunsins, Lækjarbotnahrauns og Gráhelluhrauns, og hlíðanna, Svínholts og Setbergshlíðar, liggur Selvogsgata. Hún liggur frá Hafnarfirði, Selvogsgötu, austur í Selvog.
Lengi vel var girt umhverfis Markastein til að undirstrika friðhelgi hans með hliðsjón af framangreindri sögn.
Leave A Comment