Misvísandi upplýsingar voru lengi vel um staðsetningu svonefndrar „Vífilsstaðaborgar“ og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilsstaðahlíðar. En hún fannst fyrir nokkrum árum – á ólíklegasta stað. Um er að ræða hlaðnar tvískiptar fjárhústóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.

Stór, hringlaga tóft, er augljóslega fjárborgin. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni og er hún að verða fórnarlamb vanrækslu. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.