Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns eru beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Útihús voru ýmist nálægt bæjum eða allfjarri. Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi.

Beitarhús eru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan af vellinum fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni var að dreifa beitarálaginu, líkt og í seljunum fyrrum. Beitarhús stóðu víða, stundum við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit. Rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!