Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík. Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.
Leave A Comment