Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind. Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Fyrrum, eftir gerð Heiðmerkurgirðingar, var sett hlið á girðinguna til þess að tryggja ábúanda Vatnsenda aðgengi með fé í land sitt þar fyrir ofan, í svonefndan Húsfellsbruna; ávallt hefði verið litið svo á að Húsfellsbruni væri í eignarlandi Vatnsenda annars vegar og Elliðavatns hins vegar og ekki nýttur af neinum öðrum. Ávallt var gengið út frá því að mörkin lægju frá Húsfelli í hól, kallaður Einiberjahlíð, sem liggur á mörkum Vatnsendalands og Garðakirkju. Úr Einiberjahlíð lágu mörkin í Kóngsfell. Norðan undir Húsfelli er fallega hlaðin refagildra að gamalli hefð.
Leave A Comment