Valahnúkar eru taldir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér. Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.“