Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.
Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.
Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.
„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.
Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.
Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:
„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“
Gott að leggja
Gott er að leggja við Suðurbæjarlaug, ganga þaðan um undirgöngin inn á ÓlaRunstún þar sem síðast var heyjað með tækjum dregnum af hesti fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Á milli Lindarhvamms 6 og 8 er stígur upp á Kelduhvamm og þaðan er stígur upp á klettana neðan Fuglstapaþúfunnar.
Markmið
Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.
Má finna einhverja svona staði í þínu hverfi?
Leave A Comment