Gjásel er eitt u.þ.b. 400 selja á Reykjanesskaganum – fyrrum landnámi Ingólfs. Það er, líkt og nágrannar þess, Fornasel og Straumssel, í Hrútargjárdyngjuhrauni.  Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Skammt sunnan selsins er Gránuskúti. Hlaðinn hleðsla er niður í hann, en nú umlukin trjágróðri.

Hrútagjárdyngja er um 4.500 ára hraundyngja sem þekur um 80-100 km² lands. Alls rúmir 3 rúmkílómetrar af hrauni. Dyngjan er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota. Hrútagjárdyngja er einn af stærstu hraunskjöldum á Reykjanesi. Í hrauninu er hægt að finna allmarga hraunhella, þ.á.m Steinbogahelli, Maístjörnuna og Híðið.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móháls[a]dal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum.

Ljóst er þó, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. Verksummerki eftir miðkaflan sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnanlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni og myndað ábreiðu næst dyngjunni.

Gamli gígurinn í Hrútagjárdyngju, sem gaf af sér hina miklu kviku, sést enn, en hefur nánast fyllst af nýrra hrauni.