Óbrinnishólahraun er með yngstu hraunum í Hafnarfirði. Það er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak. Í Óbrinnishólakeri, sem er mosavaxin hrauntjörn, er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnann, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt.
Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Óbrinnishólarnir er nú óðum að hverfa vegna malartöku.
Leave A Comment