Tobba, Þorbjörg, var yfirsetukona af tröllsættum við nátthaga í Grenigjám í landi Straums. Þegar skyggja tók síðla sumars átti draugur það til að áreita hana, án meinsemda í fyrstu. Draugur þessi fór víða og eru nálæg örnefni því til staðfestingar, s.s. Draugadalir á Alfaraleiðinni, þar sem hann angraði ferðamenn, Draughóll og Draughólshraun. Síðarnefndu örnefnin urðu til eftir að Tobbu leiddist ásælni draugsa eina nóttina, sat fyrir honum norðaustan við klett þann er við hana er kenndur, og kom honum að óvörum. Eftir langvinn átök sá draugurinn sitt óvænna og flúði uppi í torfært hraunið ofanvert þarf þar sem hann hvarf inn í háan hól, en þar sem Tobba stóð móð eftir birtust fyrstu sólargeislar morgunskímunnar yfir Lönguhlíðum með þeim afleiðingum að hún varð að steini – þar sem hún er enn í dag.
Nú nefnist nátthaginn Tobbuklettsrétt. Há varða, Tobbuklettsvarða, er á hól skammt norðar. Undir honum eru hleðslur; Tobbubæli.
Ari Gíslason segir í örnefnalýsingu: „Austur af Rauðamel, norður af Grenigjá, eru Tobbuklettar þrír klettar í röð í grasbrekku. Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll.“
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Úr Pétursbyrgi liggur landamerkjalínan á austurhlið Straums í svonefnda Tó, Tóhól eða Tóklett, sem er rétt vestan við Þorbjarnarstaðatún, og þaðan suður á Seljahraun. Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.
Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða.“
Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnarstaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuklettsvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“.
Í skrá G.S. segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“.
Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum er bæði getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Austari Tobbuklettar eru fast við austri Straumsselsstíginn (Fornaselsstíg). Þar í kleppasprungu eru fyrirhleðslur og varða ofar.
Leave A Comment