Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“
Leave A Comment