Við hraunbrún Brunans ofan Gerðis í Hraunum eru tvö fjárskjól; Neðri-hellar og Efri hellar. Í þeim síðarnefndu er hlaðið framan við tvo langa skúta í grónum bala, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru gamlir fjárhellar frá Þorbjarnarstöðum. Skjól þessi eru dæmigerð fyrir fjárskjól fyrri tíma – þegar sérstaklega hönnuð hús eða skjól, önnur en fjárborgir, fyrir fé þekktust ekki. Ofan við hellana var Bruninn jafnan nefndur Brenna.

Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allstórt gróið hraunsvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast.