Stórhöfði er móbergsstandur frá ísaldarskeiði, líkt og höfðarnir umleikis, Selhöfði, Húshöfði og Fremstihöfði. Framan við Stórhöfða eru Óbrennishólahraunin (Hellnahraun).
Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, sagði eftirfarandi m.a. um Óbrinnishólahraun: „Ofan á gjalli eldri gíganna í Óbrinnishólum er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, en víðast 5-8 cm. Þó er það á stöku stað 10-15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15-20 cm upp í gjallið. Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heillegir og 10-15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu. Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:
- Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár
- Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár
Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.“
Leave A Comment