Vesturlandamerki Hvaleyrar að norðanverðu lá niður í Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem alfaraleiðin lá upp á Kapelluhraunið (hún var eyðilögð við jarðvegsraskið í hrauninu). Frá Þórðarvík og innar nefnast Gjögur, og liggur leiðin innanvert við þau. Skarfaklettur er innarlega á Gjögrunum og enn innar Háanef. Suður af því liggur leiðin hjá djúpri gjótu, nefnist Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í. Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom að þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Þó er allur varinn góður.