Víðistaðir er óbrennishólmi í Hafnarfirði, umlukin Búrfellshrauninu, sem rann frá Búrfelli fyrir um 8000 árum. Til er skemmtileg þjóðsaga um tilurð þess að hraun rann ekki yfir Víðistaðatún sem má lesa í ítarupplýsingum á vef Ratleiksins. Hins vegar hefur þarna verið eyja sem hraunið hefur runnið í kringum en jarðvegurinn fokið í burtu og lækkað.

Þjóðsagan um tilurð Víðistaðatúns er á þá leið að smali frá Görðum var látinn gæta fjár á völlunum þar sem nú er Norðurbærinn í Hafnarfirði. Hann var utan við sig og átti til að gleyma sér við dagdrauma og svo var einmitt þegar hraunið rann. Þegar hann loks rankaði við sér hafði eimyrjan þegar lokað leiðinni heim til Garða og nálgaðist nú jafnt á þrjá vegu en rjúkandi sjór lokaði undankomuleiðinni í fjórðu áttina. Drengurinn sá að sér og hjörðinni sem honum hafði verið trúað fyrir var bani búinn og hann fengi ekkert að gert. I angist sinni leitaði hann til Drottins og fól honum allt sitt ráð. Þegar hann leit upp hafði hraunið klofnað og hraungarður hlaðist upp hringinn í kring þar sem hann og skepnurnar voru. Hann hafði hlotið bænheyrslu og Víðistaðir voru orðnir til.

Stefán Júlíusson, rithöfundur, komst svo að orði um Víðistaði í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1959: „Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðingar, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins?

Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt.

Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann.“