Vestan við Rauðamel stóra (nú grjótnáma) er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi refaskyttu. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Á honum er rammi um fyrrum listaverk; „Slunkaríki“.

Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, Óttarsstaða (Kristrúnarborg) frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.

Smalabyrgið sjálft, sem hæðin er kennd við, er hlaðið utan í hraunklett, skammt sunnan við gamla Keflavíkurveginn (Suðurnesjaveginn).