Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna. Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.
Vestan Draughólshrauns
Leave A Comment