Dauðadalir hafa löngum haft yfir sér dulúð, án þess að nokkrar skráðar heimildir séu beinlínis til um þá.
Þó hallast margir að því að útilegumennirnir, sem handsamaðir voru við Húsfell á 15. öld hafi um skeið haldið til í dölunum. Hér er að finna hin ágætustu skjól, en hvergi er sýnilegum mannvistarleifum til að dreifa, nema ef vera skyldi í Rauðshelli í Helgadal. Aðrar gætu mögulega verið þaktar mosa, líkt og víða eru dæmi um. Þá skortir hér vatn, að því er virðist við fyrstu sýn. Hins vegar, ef betur er að gáð, má vel merkja forna lækjarfarvegi neðan vestanverða Markraka, auk vatnsbólsins ofan Kaldárhnúka í Helgadal. Sagan gæti tengst annarri slíkri. Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði“. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:
„Selsvellir og Hverinn eini. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal.
Leave A Comment