Um Kýrskarð rann hrauntunga frá Gvendarselsgígunum. Gígarnir þeir voru nyrstu útstöðvar Ögmundarhraunsgígaraðarinnar frá um 1151. Um það eldgos á einstakri sprungurein hafa verið skrifaðar fjölmargar lærðar ritgerðir. Hrauntröð er í Kýrskarði. Þar hefur hraun runnið úr tveimur syðstu gígum Gvendarselsgígaraðarinnar ofan Undirhlíða. Þeir eru hluti Ögmundarhrauns.
Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún liggur frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og endar millum Helgafells og Kaldárhnúka fyrir ofan Hafnarfjörð. Þar endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.
Leave A Comment