Þeir fáu sem lagt hafa leið sína um Markraka undir Lönguhlíð hafa veitt athygli „vörðu“ á móbergshrygg. Í dag er varðan sú landamerkjavarða millum landa Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Svo var nú ekki fyrrum.
Þessi varða er merkilegt fyrirbæri. Sagan segir að tröllskessa í Kistufelli (sumir segja í Hvirfli) hafi fyrir alllöngu lagt af stað við sólsetur áleiðis að Hvaleyri þar sem frést hafði af hvalreka. Systrum hennar ofan við Bolla og í Kerlingarhnúk hefðu og borist boðin. Þær héldu hiklaust niður að Hvaleyri.
Tröllskessan í Kistufelli átti lengri leið fyrir höndum. Hún þurfti að fara niður háheiðina ofan Lönguhlíðar með stefnu á Kerlingargil. Í myrkri og þoku villtist hún af leið og kom fram á brún hlíðarinnar þar sem nú heitir Mígandagróf. Nafnið er ekki komið af engu, en skal ekki fjölyrt meira um það hér. Nú er þar í og ofan við pollinn ein hin mesta litskrúð, sem þekkist á gjörvöllum Reykjanesskaganum, ef frá eru skildir hverirnir.
Um nóttina rofaði til. Tröllskessan hélt þá sem leið lá áleiðis niður Kerlingargilið og hugðist halda niður að Hvaleyri. Á leið sinni niður gilið heyrði hún í næturkyrrðinni hvar lóan og spóinn sungu hinn indælasta og ljúfasta samsöng í hlíðinni. Staldraði tröllskessan því við um stund neðan við gilið til að hlusta á dásemd næturinnar. Á meðan marði hún jurtir og málaði í hrifningu listaverk á nálæga steina, sem enn má sjá í hlíðinni.
Þegar söngnum lauk var langt liðið á nóttina. Þegar skessan var kominn niður á Markraka sá hún fram á að henni myndi ekki endast tími til að fara alla leið niður að Hvaleyri og til baka áður en nóttin varð að degi. Raðaði hún steinum í kringum sig og hlóð síðan úr nokkrum þeirra vörðu á hryggnum til marks um vilja hennar áður en hún hélt örg til baka upp Kerlingargilið og heim. Á leiðinni um Lönguhlíð að Kerlingargili kastaði hún nokkrum stórum steinum frá sér. Eru þeir jafnan nefndir Kerlingarsteinar.
Leave A Comment