Örnefni neðan Lónakotssels og ofan Alfaraleiðarinnar milli Útnesja og Suðurnesja eru fá. Ofan vegarins liggur landamerkjalínan (enn sjást í hrauninu einstaka girðingarstaur á stangli sem og undirhleðslur) um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Þaðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás ofan selsins og þaðan í Mið-Krossstapa.

Á Hólsbrunnshæð er gríðarlegt jarðfall, sem hæðin dregur nafn sitt af (það er líkt og náttúrulegur brunnur í laginu). Ekki er ólíklegt að jarðfallið sé hluti af mikilli neðanjarðarhraunrás er nær upp að Urðarási ofan krosstapanna og jafnvel lengra upp í Hrútargjárdyngjuhraunið.