Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.
Leave A Comment