Stórhöfðastígur, í átt að Fjallinu eina frá hraunhólunum norðaustan Fremstahöfða, liggur meðfram norðanverðu tilkomumiklu misgengi. Þar sem það er hæst verpir smyrill. Misgengið er hluti af víðfeðmnu landsigi milli Fjallgjárinnar og Sauðabrekkna. Vestar heldur það áfram eftir miðjum skaganum, milli Hrafnagjár og Brunnastaðaselgjár í Vatnsleysu- og Vogaheiði. Vestar er misgengið áberandi í Hábjalla norðan Snorrastaðatjarna. Norðaustan Fjallgjárinnar heldur misgengið áfram um Helgadal, Smyrlabúð og Hjalla í Heiðmörk.

Misgengi má sjá víða hér á landi þar sem jarðskorpan hefur ýmist gengið í sundur (gliðnað) eða sigið (risið). Þau eru af ýmsu tagi en megingerðirnar eru þrjár; siggengi vegna gliðnunar (til dæmis Almannagjá), ris- eða þrýstigengi vegna samþjöppunar (engin dæmi hér á landi, en fræg í fellingamyndunum) og sniðgengi vegna hliðrunar (til dæmis Suðurlands- og Tjörnes-brotabelti).

„Þverbrotabelti“ er notað um sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja. Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn og með því að flæði möttulefnis undir Íslandi út frá þessari miðju er helsti drifkraftur flekahreyfinga, þá „leitast“ rekbeltin við að vera yfir heita reitnum. Í 15 milljón ára jarðsögu Íslands hefur slíkur gosbeltaflutningur orðið að minnsta kosti þrisvar.

Þverbrotabelti einkenna allt rekhryggjakerfi jarðar, sem er um 60.000 km langt, og skiptist í búta sem hnikað er til hverjum miðað við annan. Almennt tengjast þverbrotabeltin ekki heitum reitum, heldur virðast þau hafa myndast um leið og rekhryggurinn sjálfur og haldast síðan nokkuð stöðug. Myndun þeirra er sennilega háð spennusviðinu sem ríkti þegar hryggurinn var að myndast.

Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!