Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna „Selvogsgata“.
Í rauninni er um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.
Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint af augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Þau eru merki um gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.
Leave A Comment