Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafin upp mannvirki frá landnámstímanum sem hafa verið túlkuð sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, fjósi og húsi til mjólkurvinnslu og ostagerðar sem og soðholu. Þá eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Selsstaðan hefur væntanlega verið frá Hofstöðum og liggur selsstígurinn um Hagakot og Hafnarfjarðarhraun að Urriðakoti.