Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman.

Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn standa.