Um er að ræða „Fjárhústóftina syðri“, skv. heimildum. Það var upphaflega reist sem Sauðahús. Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum.
Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi. Í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega „Fjárrétt“.
Leave A Comment