Ástjörn og Ásfjall var friðlýst sem fólkvangur árið 1996. Fólkvangurinn umlykur friðland Ástjarnar en Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978.

Ásfjallið var lengi sagt lægsta fjall á Íslandi. Það mun þó ekki vera alls kostar rétt því á Austurlandi mun þó finnast fjall sem mælist lægra.

Útsýni af fjallinu er gott og sérstaklega áhugavert fyrir áhugafólk um jarðfræði og sögu höfuðborgarsvæðisins.

Á Ásfjalli eru minjar um hersetu fyrr á öldinni, m.a. eru minjar frá hersetu Breta neðan við vörðuna.

Ásfjall er hæst 127 m.y.s. Það er í raun grágrýtishæð. Ásfjall og Ástjörn bera nafn af bænum Ási, sem stóð undir fjallinu. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum, en allvel gróið mosa og lyngi.  Efst á því er Dagmálavarðan, sem nú hefur verið endurhlaðin.

Dagmálavarðan á Ásfjalli.

Dagmálavarðan var fyrst og fremst leiðarmerki á fiskimið, sbr.: „Með hvarfi vörðunnar á Ásfjalli hefði líka horfið eitt ágætt fiskimið. Í endurminningum Erlends Björnssonar á Breiðabólsstöðum kemur fram að Ásvörðuslóð er eitt að þeim miðum sem mest voru sótt fram á Sviði. Önnur mið á Sviðinu heita Sandhali, Marfló, Klettslóð, Bollaslóð og Riddararnir saman. Reyndar talar Erlendur um vörður í Ásfjalli og því virðast þær hafa verið fleiri um aldamótin 1900. En miðið Ásvörðuslóð er þegar Valahnjúkarnir eru um vörður á Ásfjalli.“ Til fróðleiks má nefna að nú er aðeins annar Riddarinn eftir og er hann á Helgafelli.

Varðan og útsýnisskífan til hægri.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð 2006 eða 2007 en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Svona leit varðan út árið 2007 eftir að hún hafði verið skemmd.