Fjárborg Þorbjarnarstaðafólksins efst í Brunatorfunum (Brund-, Brunn-), svonefnd Þorbjarnarstaðarfjárborg, ein sú stærsta og heillegasta í umdæmi Hafnarfjarðar. Borgin er og mjög falleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar (Skjár 1). Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirra Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Guðmundar frá Haukadal (Álfsstöðum), Jónssonar frá Fossi)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldamótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Ef að líkum lætur hefur börnunum verið bannað að ljúka verkinu, enda ekki verkfræðilega mögulegt að topphlaða svo stóra fjárborg. Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður úr Selvogi, sem fyrr sagði.