27. Búðarvatnsstæði – Yngra Afstapahraun

Vestan undir Búðarvatnsstæðinu er hár hraunkantur. Undir honum, þar sem einn síðasti girðingarstaur mæðiveikigirðingarinnar á mörkum Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandar-hrepps, stendur enn, er fyrrnefnt Búðarvatnsstæði. Markaði girðingin landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga. Hraunkanturinn er hluti af Yngra Afstapahrauni frá um 1325. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið. Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðavatnsstæðið sést merkileg varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel [...]