Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar 2024

SMELLTU

Ratleikur Hafnarfjarðar á sér langa sögu og hefur í gegnum árin aukið áhuga fólks á útivist í upplandi Hafnarfjarðar. Fólk hefur upplifað áhugaverða stað, minjar, mannvistarleifar og jarðmyndanir og lært þannig að meta það sem finnst í næsta nágrenni okkar.

Leikurinn hefur verið samstarfsverkefni Hönnunarhússins ehf. og Hafnarfjarðarbæjar frá 2007.

Ratleikur Hafnarfjarðar er leikur sem stendur yfir frá júní til september ár hvert. Lögð eru út 27 merki vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar og jafnvel inn í nágrannasveitarfélögin. Með fríu vönduðu ratleikskorti leita þátttakendur merkjanna og merkja við lausnarorð. Allir sem skila lausnum eru með í útdrætti um Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng sem fá vegleg verðlaun. Auk þess eru mörg útdráttarverðlaun.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Nota má þessa síðu til að leita áhugaverðra staða. Ekki þarf að skrá sig en fólk er hvatt til að deila myndum úr leiknum og deila á samfélagsmiðla með myllumerkinu #litliratleikur

Brot af því góða

Helgafell

Móbergsfjall sem varð til undir jökli

Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi suðaustur af Hafnarfirði. Fjallið myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari sem var nýttur sem mið fyrir sjómenn.

Skógarsvæði

Skógarsvæðin við Hafnarfjörð fara stækkandi

Fyrst var farið að planta trjám við Hvaleyrarvatn rétt fyrir 1960 en Skógræktarfélag Hafnarfjarðar efldi skógrækt sína á sjöunda áratuginum og nú eru við vatnið alvöru skógar með skógarstígum.

Lækjarbotnar

Gamalt vatnsból Hafnfirðinga

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns. Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð. Þaðan lá trépípa til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909.

Ástjörn

Friðland í miðjum bæ

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið.

Skógarskólastofa

Skógarskólastofan í Höfðaskógi

Útikennslustofa Skógrætarfélagsins er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Var hún útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Langt samstarf

Samstarf frá 2006

Hafnarfjarðarbær og Hönnunarhúsið ehf. hafa átt samstarf með útgáfu á Ratleik Hafnarfjarðar frá 2006 þegar Hönnunarhúsið tók að sér útgáfu á ratleikskorti. Þó var fyrst gerður skriflegur samningur um leikinn árið 2019.

Skemmtilegur og fræðandi leikur

Fólkið bak við Ratleikinn

Guðni Gíslason

Guðni

Guðni Gíslason er ritstjóri Fjarðarfrétta og eigandi Hönnunarhússins ehf. sem gefur Ratleik Hafnarfjarðar út og leggur. Guðni hefur lagt leikinn frá 2007 en hann er skáti fram í fingurgóma og sex drengja faðir sem hefur gaman af að skoða eitthvað nýtt og fræðast.

Hefur öll fjölskyldan á einhverjum tímapunkti tekið þátt í að leggja ratleikina enda hin besta fjölskylduskemmtun.

Guðni tekur gríðarlega mikið af myndum og einhverjar þeirra slysast til að vera bara nokkuð góðar.

Ómar Smári

Ómar Smári Ármannsson er fornleifafræðingur, leiðsögumaður og fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn auk þess að vera gríðarlega fróður um minjar og náttúrufar á Reykjanesi. Hann heldur úti gríðarlega öflugri upplýsingasíðu, ferlir.is sem er stútfull af fróðleik um uppland Hafnarfjarðar og miklu meira. Ómar Smári er Hafnfirðingur en ólst upp í Grindavík og þekkir þar bókstaflega hverja þúfu. Ómar Smári hefur veitt ómetanlega aðstoð við lagningu Ratleiks Hafnarfjarðar og hefur verið hægt að sækja í endalausan fróðleiksbrunn hans.

Hafðu samband

    Go to Top