Hinn vinsæli Ratleikur Hafnarfjarðar er hafinn í 24. sinn.
Stendur hann yfir fram í september en hann gengur út á að þátttakendur fá vandað ratleikskort þar sem merktir eru inn á 27 staðir, vítt og breytt í bæjarlandinu. Þeir hafa svo allt sumarið til að leita að þessum stöðum en áberandi ratleiksmerki er á stöðunum.
Sum merkjanna eru inni í bænum og önnur í bæjarlandinu og jafnvel út fyrir það í einstaka tilfellum. Leikurinn er kjörin leið til að kynnast bæjarlandinu sem er svo fjölbreytt og hefur að geyma söguna, fjölbreytt náttúrufar og dýralíf. Fróðleikspunktar eru á kortinu og enn ítarlegri á vefsíðu leiksins, ratleikur.fjardarfrettir.is en Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur og leiðsögumaður hefur tekið þá saman. Hefur hann veitt ómetanlega aðstoð við gerð leiksins undanfarin ár en fáir þekkja sögu Reykjanesskagans betur en hann.
Fjöldi vinninga
Leikurinn stendur til 20. september en allir sem skila inn lausnum og mæta á uppskeruhátíð leiksins eiga möguleika á flottum útdráttarvinningum. Allir eru hvattir til að skila inn lausnum, hvort sem þeir hafi fundið alla eða aðeins eitt merki.
Til gamans er leiknum skipt í þrjá flokka, Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en þeir sem skila inn 9 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Léttfeti Ratleiks Hafnarfjarðar og þeir sem skila inn 18 lausnum geta hlotið sæmdarheitið Göngugarpur Ratleiks Hafnarfjarðar og þeir sem skila inn öllum 27 lausnunum geta hlotið sæmdarheitið Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar. Verða þrír í hverjum flokki dregnir út og fá glæsilega vinninga.
Rósa fékk fyrsta ratleikskortið
Guðni Gíslason, umsjónarmaður Ratleiks Hafnarfjarðar afhenti Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra fyrsta Ratleikskortið í síðustu viku en leikurinn er unninn af Hönnunarhúsinu ehf. í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.
Sjá nánar hér í frétt á Fjardarfrettir.is

Ratleikskortin má fá frítt víða, m.a. í Fjarðarkaupum, í Bókasafninu, í Ráðhúsinu, á sundstöðum og á bensínstöðvum.
Leave A Comment