Þema Ratleiks Hafnarfjarðar er hraun og skyldi engan undra miðað við þann áhuga sem fólk hefur á eldgosinu á Reykjanesi.
Margar eldstöðvar eru ofan við Hafnarfjörð og mörg hraun hafa runnið og oft yfir fyrri hraun. Hraun rann til sjávar við Straumsvík á sögulegum tíma og byggðin á Völlum og sunnan Hvaleyrar eru því á hrauni sem runnið hefur eftir að land byggðist.
Ratleikskortið hefur verið sent í prentsmiðju og er því væntanlegt í næstu viku. Búið er að leggja út flest merkin og verðu þeirri vinnu lokið um helgina.
Ratleikurinn er unninn af Hönnunarhúsinu ehf. og hefur Guðni Gíslason lagt leikinn og notið við það góðrar aðstoðar Ómars Smára Ármannssonar, fornleifafræðings, sem heldur úti fróðleiksvefnum ferlir.is
Leikurinn er sem fyrr gefinn út í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ en fjölmargir hafa styrkt útgáfu leiksins með auglýsingum og vinningum sem eru fjölmargir.
Upplýsingar um staðina og myndir eru þegar komnar hér á vefinn.
Ratleikskortið sem er frítt að vanda mun liggja frammi í Fjarðarkaupum, Bókasafninu, Ráðhúsinu, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, N1, íþróttahúsum og víðar.
Leikurinn stendur yfir í allt sumar og síðasti skiladagur lausna er 20. september.
Þeir sem finna 9, 18 eða 27 merki eiga möguleika á að fá vegleg verðlaun og allir sem skila inn lausnum geta fengið útdráttarvinning, mæti þeir á uppskeruhátíðina.
Leave A Comment