Ratleikur Hafnarfjarðar, ævintýraleikur fyrir alla, unga sem aldna. Leikurinn skiptist í þrjá styrkleikaflokka: Léttfeta, Göngugarp og Þrautakóng en hverjum er í sjálfsvald sett að nýta sér leikinn á hvern þann hátt sem hentar best. Markmiðið með leiknum er að hvetja til útivistar og náttúruskoðunar í fjölbreyttu upplandi Hafnarfjarðar og um leið að vekja athygli á þeim fjölmörgu perlum sem leynast í okkar næsta nágrenni.

Það er skátinn og ritstjórinn Guðni Gíslason sem leggur leikinn en Ómar Smári Ármannsson hefur lengi aðstoðað við val á stöðum og skrifað lýsingar. Ómar Smári heldur úti síðunni ferlir.is þar sem finna má óhemju mikinn fróðleik um Reykjanesið og fleiri staði.

Vandað útivistarkort

Loftmyndakort á að auðvelda útivistarfólki að rata um svæðið og sjá betur breytingar á landi, mismunandi hraun o.s.frv. Kortið má að sjálfsögðu nota í öllum gönguferðum enda eru merktir inn á það fjölmargir áhugaverðir staðir. Á kortinu eru gömlum þjóðleiðum gerð skil í leiðarlýsingum.

Fróðleiksmolar

Fróðleiksmolum er ætlað að veita nánari upplýsingar um viðkomandi stað og auðvelda væntanlega leit en skynsamlegt er að treysta einnig á hyggjuvitið og glöggskyggni til að finna ratleiksmerkin.

Meginstef leiksins

Leikurinn nær yfir bæjarlandið vítt og breytt og jafnvel út fyrir það. Þátttakendur eru leiddir á staði með því markmiði að fólk kynnist bæjarlandinu um leið og menn njóta hressilegrar útivistar. Fjölskrúðugt uppland Hafnarfjarðar er gríðarlega áhugavert og myndavél, vasaljós og sjónauki nauðsynlegt með í för því aldrei er að vita hvað rekast má á í upplandinu. Víða má rekast á minjar um veru fólks í hraununum og sjá má stíga, hleðslur og gróna bletti.

Þema leiksins er mismunandi hvert ár, stundum er lögð áhersla á jarðmyndanir, hella, minjar eða annað en þess á milli er bara fjölbreytt úrval staða sem áhugavert er að skoða.

Einfaldar reglur

Leitað er að spjöldum á stöðum sem merktir eru á kortið og er vísbendingar að finna á lausnarblaðinu á kortinu.

Á hverju spjaldi eru þrír bókstafir og þrír tölustafir. Þátttakendur sýna fram á að þeir hafi fundið viðkomandi spjald með því að skrifa þessa stafi inn á lausnablaðið. Mikilvægt er að hreyfa ekki við sjálfum ratleiksspjöldunum. Munið að birta aldrei myndir af lausnarnúmerunum!

Ert þú Léttfeti, Göngugarpur eða Þrautakóngur?

Til þess að verða Léttfeti þarf að finna fyrstu 9 spjöldin, eða einhver 9 spjöld. Til þess að verða Göngugarpur þarf að finna 18 spjöld en til þess að verða Þrautakóngur þarf að finna öll spjöldin 27.

Þátttakandi sem hefur fundið 9 ratleiksspjöld getur skilað inn lausnum í Léttfeta flokki og sá sem finnur 18 spjöld er gjaldgengur í flokk Göngugarpa. Þátttakendur velja reyndar sjálfir hvaða spjöldum þeir leita að, en mælt er með því að byrja á fyrstu 9 spjöldunum til að átta sig á leiknum. Síðan er hægt að feta sig áfram og bæta við ratleiksstöðum eftir getu og vilja til að halda leiknum áfram. Sá sem afrekar að finna öll 27 spjöldin fyllir sjálfkrafa flokk Þrautakóngs Ratleiks Hafnarfjarðar.

Vinningar

Að hausti er dreginn út sigurvegari í hverjum styrkleikaflokki. Auk þess eru tveir heppnir keppendur dregnir út í hverjum flokki og fá þeir aukavinninga. Þeir sem skila inn lausnarblöðum og mæta á uppskeruhátíðina geta svo átt von á útdráttarverðlaunum!