Alfaraleið

4. Útnesjaleið á Alfaraleið

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman. Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. [...]

17. Alfaraleið

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og - hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina.  Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu). Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli. Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, [...]

Go to Top