1. Bali – Búrfellshraun
Bali er nú austasti bærinn í Garðahverfi í Garðabæ. Balavarðan, fremst á hraunstrandarbrúninni, markar skil Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Fyrrum náði þó Garðahreppur yfir allan Hafnarfjörð, allt að Hvassahrauni í vestri. Búrfellshraun er samnefni yfir hraunasvæði sem teygir sig yfir stórt svæði ofan Hafnarfjarðar. Hraunin runnu fyrir um 8000 árum en þá varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell ofan Garðabæjar. Hraunin nefnast ólíkum nöfnum eftir staðsetningu þeirra eða útliti, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Stekkjahraun, Engidalshraun, Klettahraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun og Balahraun. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973). Niðurstaðan var að hraunið væri um 8000 ára. Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (t.d. Kapelluhrauni) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Næst rann taumurinn; Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði. Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun). Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli (Helgadalur). [...]