14. Hrauntungustígur

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna "skýjaborg", Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið - til þess var ummál borgarinnar allt of mikið. Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni.