Dauðadalir

21. Dauðadalir – útilegumenn

Dauðadalir hafa löngum haft yfir sér dulúð, án þess að nokkrar skráðar heimildir séu beinlínis til um þá. Þó hallast margir að því að útilegumennirnir, sem handsamaðir voru við Húsfell á 15. öld hafi um skeið haldið til í dölunum. Hér er að finna hin ágætustu skjól, en hvergi er sýnilegum mannvistarleifum til að dreifa, nema ef vera skyldi í Rauðshelli í Helgadal. Aðrar gætu mögulega verið þaktar mosa, líkt og víða eru dæmi um. Þá skortir hér vatn, að því er virðist við fyrstu sýn. Hins vegar, ef betur er að gáð, má vel merkja forna lækjarfarvegi neðan vestanverða Markraka, auk vatnsbólsins ofan Kaldárhnúka í Helgadal. Sagan gæti tengst annarri slíkri. Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði“. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar: „Selsvellir og Hverinn eini. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást [...]

25. Dauðadalir

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn. Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð. Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld.

Go to Top