17. Alfaraleið
Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og - hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu). Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli. Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, [...]