13 – Fjárborg

Fjárborgir á Reykjanesskaganum eru 142 talsins. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Borgirnar voru jafnan hringlaga byrgi hlaðið úr torfi eða grjóti sem notað var fyrr á öldum til að skýla sauðfé fyrir veðri og vindum. Þær voru framhald fjárskjóla og undanfari fjárhúsa, en ekki voru byggð hús sérstaklega yfir sauðfé á svæðinu fyrr en í byrjun 20. aldar. Oftast voru aðeins háir veggir á fjárborgum en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Aðeins ein dyr var og þær oftast aðeins fjárgengar. Leifar einnar slíkrar eru á Borgarstandi norðan Kaldársels. Um er að ræða topphlaðna fjárborg, sem með tímanum hefur fallið saman. Áhrif aðdráttarafls jarðar gildir jú um þær líkt og annað. Borgin er tiltölulega lítil umleikis, en það var forsenda þess að hægt var að hlaða í topp. Önnur sambærileg fjárborg var áður skammt austar á Borgarstandi, en Hafnfirðingar hirtu nærtækt grjótið [...]