Fornubúðir

14 – Verslunarstaðurinn Fornubúðir

Hafnarfjörður var aðalhöfn Hansakaupmanna hér á landi á ofanverðri 15. öld og alla þá sextándu. Verslunarbúðir Hansakaupmanna í Hafnarfirði voru á svoköllum Háagranda sem var ysti hluti Hvaleyrargranda. Þar höfðu þeir ríka þörf fyrir varanlegan húsakost enda fjölmennar áhafnir á skipum þeirra, jafnvel um 60 manns á hverju. Fornubúðir voru á tanga sem náði all frá Hvaleyrarlóni og að þar sem nú er smábátabryggja. Gísli Sigurðsson skrifaði um Fornubúðir og Hvaleyrartjörn í tímaritið Sögu árið 1963: „Fornubúðir hét hann, verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð á miðöldum. Hann er talinn hafa staðið á Hvaleyrargranda, sem líka er nefndur Hafnarfjarðargrandi eða Grandinn við Hafnarfjörð. Þarna er hann talinn hafa staðið, frá því sögur hófust um verzlun og siglingar til Hafnarfjarðar fram til ársins 1677, að verzlunarstaðurinn var fluttur norður yfir fjörðinn, í land Akurgerðis, hjáleigunnar hjá Görðum. Talið er, að færsla þessi hafi átt sér stað sérstaklega vegna þess, að þrengdist um hann af landbroti og sjávargangi.“ Þá segir hann einnig: [...]

1. Fornubúðir (verslun)

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þá er komið að Óseyrartjörn. Hér tekur Grandinn mikinn sveig út í höfnina. Nefnist þar Kringla, en innsti hluti Grandans heitir Háigrandi og Grandahöfuð. Hér stóð verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð í eina tíð, Fornubúðir.“ Á síðustu öld sást enn móta fyrir grunnum verslunarhúsa á Grandanum, en þær eru nú að mestu horfnar.

Go to Top