3. Hagakotsstígur
Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir. Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns. Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.