8. Kúastígur

Kúastígur liggur frá Kaldárseli, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta. Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring. Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár. Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, [...]