27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata
Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við. Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna „Selvogsgata“. Í rauninni er um þrjár götur að velja og er „túrhestagatan“ nýjust. „Túrhestagatan“ er seinni tíma „gata“, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna [...]