3. Klettahraun – Búrfellshraun
Klettahraun er hluti Garðahrauns. Í Klettahrauni eru álfaborgir, skv. heimildum, og ber því að umgangast það með varfærni. Þrátt fyrir byggð svæði í og ofan Hafnarfjarðar hafa skipulagsyfirvöld jafnan reynt að gæta þess að varðveita einstakar hraunmyndanir, líkt og finna má í Klettahrauni. Annað dæmi um slíkt er Hellisgerði. Hluti Búrfellshrauns nefnist Garðahraun og skiptist í Engidalshraun og Klettahraun sem er líka nefnt Klettar. Allstórir ólivín-dílar eru helsta einkenni Búrfellshrauns en þeir eru fremur sjaldséðir á Reykjanesskaga og koma einkum fyrir í eldri hraunum en eru áberandi í nýja hrauninu í Geldingardölum. Upptakasvæðið er afar sérstakt, einkum fyrir hrauntröðina Búrfellsgjá og ummerki eftir stórar hrauntjarnir norðan (Búrfellsgjá og Selgjá), austan (Lambagjá) og vestan við Kaldársel (Gjárnar).