9 – Lækjarbotnar

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Stíflan efst við Gráhelluhraun. Efst má sjá Selvogsgötuna. Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og [...]