7 – Vindspil
Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003. Listaverkið Vindspil. Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu. Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri. [...]