4 – Reykdalsvirkjunin
Árið 2001 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa hvernig minnast mætti á eftirminnilegan hátt brautryðjandastarfs Jóhannesar J. Reykdals og 100 ára afmælis rafvæðingar í Hafnarfirði og á Íslandi. Hópurinn tók sér vinnuheitið Reykdalsfélagið og að frumkvæði þess var ráðist í endurbyggingu Reykdalsvirkjunar, sem upphaflega var gangsett haustið 1906. Endurbyggingin náði til endurgerðar miðlunarlóns, stíflu og aðveitustokks, auk þess sem byggt var nýtt glerhús sem hýsir hverfil og rafal undir brúnni á Lækjargötu. Framkvæmdum við endurbygginguna lauk seint árið 2007 og var Reykdalsvirkjun formlega endurræst þann 18. janúar 2008. Ný stífla, stokkur og rafstöð. Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði árið 1904. Rafstöðin var við Austurgötu og í eigu Jóhannesar Reykdal. Vegna mikillar eftirspurnar eftir raforku í bænum árið eftir, var ákveðið að reisa nýja og mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Jóhannes leigði landið af staðarhaldaranum á Görðum en auk stíflunnar lét hann reisa langan vatnsstokk og stöðvarhús með íbúð fyrir stöðvarstjórann og fjölskyldu hans. [...]